Hundaræktun

Hugleiðingar um hundaræktun

Þegar Maður fær sér hvolp þarf maður að hafa það í huga að hundurinn á eftir að lifa næstu 10-12 ár og fyrir svona langtíma skuldbindingu borgar sig að vanda valið.
Valið snýst um hreinræktað eða ekki hreinræktað, hund eða tík, stórann eða lítinn og svo eru tegundirnar orðnar ótalmargar sem til eru á landinu.

-En skítt með þetta alltsamann því hér kemur aðalmálið!

Þegar þú færð þér hund á hann að hafa verið innan um fólk allt sitt líf. Aðal tíminn í þroskaferli hundsins, þar sem hann lærir hvað er eðlilegt umhverfi, er þegar hann er 3-7 VIKNA gamall Þ.e. áður en þú færð hundinn í hendurnar. Því bera ræktendur mikla ábyrgð! Hvolpar sem t.d. alast upp á stórum ræktunarbúum, þar sem ekki næst að sinna hverjum hundi sem einstaklingi á þessum aldri, eða hundar sem eru hafðir í útihúsum á sveitabæjum, þar sem ekki eru börn eða einhver sem hefur áhuga á því að umgangast þá á hverjum degi, eiga á hættu að fara á mis við það að kynnast fólki nægilega vel til að líta á það sem hluta af sinni náttúrulegu fjölskyldu. Þar af leiðandi verður hundurin tortrygginn og hræddur við fólk, og í framhaldi af því, þegar hundurinn eldist, getur hræðslan breyttst í grimmd og hundurinn orðið hættulegur.

Hundur sem sér ekki mann fyrr en um 12 vikna aldur verður aldrei tamdari en refur utan úr móa.

Skapgerð erfist og því á ekki að fá sér hvolp undan tík sem er hrædd eða grimm, það á alltaf að fá að skoða hvolpa með móðurina viðstadda, (en ekki fyrr en þeir eru orðnir 3ja vikna). og Það er best að fá að skoða pabbann líka og ef foreldrarnir eru traustir hundar, sem eru öruggir með sig við erfiðar aðstæður má fá sér hvolp undan þeim.

Það á aldrei að taka hvolp sem er hræddur við fólk, og það á ekki að taka hvolp bara af því að maður vorkennir honum, eða vill "bjarga" honum. Sem betur fer er Hundaræktarfélag Íslands farið að bjóða uppá skapgerðarmat á hundum þar sem hundar eru prófaðir við ýmsar aðstæður. Þar eiga að koma fram skapgerðargallar, séu einhverjir til staðar. það á ekki að rækta undan hundum sem ekki standast skapgerðarmat.

Þeir hundar sem ég hef hitt undanfarin misseri og eru með lélega skapgerð eru Chihuahua hundar, Border Collie og Dobermanhundar (Border Collie vegna þess að hann notar glefs þegar hann smalar kindum og það er oft alltof stutt í það að hann grípi til þess við allar mögulegar aðstæður og allar tegundirnar vegna þess að þær eru sérlega viðkvæmar fyrir því ef þeim er ekki sinnt nægilega á tímabilinu 3-7 vikna).

Ég hef sagt undanfarin misseri, því fyrir nokkrum árum voru það Silky Terrier og Beagle hundar og þar áður Springer Spaniel og Amerískur Cocker. Þetta liggur í ættum og þegar verið er að rækta undan gölluðum hundum koma gallaðir hvolpar! Að sjálfsögðu eru líka til góðir Dobermanhundar, góðir Border Collie hundar og Chihuahua, en það verður að vanda valið og sætta sig frekar við að bíða eftir rétta hundinum heldur en að taka hvolp undan tík sem er tæp á taugum. Ræktendur halda stundum að það sé hægt að bæta upp tík með lélega skapgerð með því að setja á hana yndislegan hund, EN ÞAÐ GENGUR EKKI ! -Hvolparnir læra og mótast af viðhorfi móðurinnar til fólks. Ef móðirin er slæm á taugum eru allar líkur á að hvolparnir verði það líka!

Þegar ræktendur eru að rækta og selja hunda með gallaða skapgerð, eru að rækta peninganna vegna eða eru bara blindir fyrir göllunum í tíkinni sinni eru þeir að plata fólk til að kaupa sér vandamál sem leggur heilu fjölskyldurnar undir sig , þeir eru að dreifa vandamálum yfir saklausar fjölskyldur sem þurfa svo að berjast við vandamálin mánuðum saman eða þar til þær gefast upp. Tilfinningarnar sem fylgja þessu eru svo ómælanlegar, því fólk tengist hundinum sínum, sama hvað hann er lítið spennandi að eðlisfari.

-Svo er það hin hliðin!

Ræktendur eru mismundandi metnaðarfullir og hafa ólíka reynslu af því sem þeir eru að gera og það er sama hvað fólk vandar sig í ræktun og uppeldi hvolpa, það verður aldrei allt 100 %, hver hundur hefur sína skapgerð og hundar í goti eru eins ólíkir í sér og systkyn eru í mannafjölskyldum. Og undaneldisdýrin passa misvel saman.

Hundar eru ekki klónaðir, og þegar maður kaupir sér hvolp er maður alltaf að hlutatil að kaupa vonina! Þegar maður fær svo nýja hvolpinn sinn í hendurnar er komið að manni sjálfum, og hundurinn verður ekki betri en hann er hafður og tamningin tekur tvö ár. Það er líka sama hvað foreldrarnir eru miklir meistrarar í sýningarhringnum, það er ekki þar með sagt að þeir gefi af sér meistara, og flestir hundar verða bara venjulegir hundar.

Langflestir eru heppnir með hundinn sem þeir fá og sem betur fer finnst flestum sinn hundur fallegasti og besti hundurinn í öllum heiminum.

-Að lokum og að endingu!

Alltaf skal það koma mér jafn mikið á óvart hve hundar eru yfir höfuð góð dýr og alveg ótrúlegt hvað þeir þola hve eigandinn veit lítið um hunda og hversu auðvelt það er í raun að leiða þá af rangri braut þegar maður hefur talað eigandann aðeins til.